Stephen Jack, framkvæmdastjóri Fjármálasviðs Straums, tekur við stjórn Fjárstýringar hjá bankanum, þar á meðal Fjárfestatengslum, að því er segir í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar. Þar segir að þessi viðbót við starf hans fylgi í kjölfar uppsagnar Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, sem hafi verið framkvæmdastjóri Fjárstýringar frá árinu 2005.

Í tilkynningunni er haft eftir William Fall, forstjóra Straums, að það sé bankanum ánægjuefni að Stephen skuli hafa samþykkt að útvíkka hlutverk sitt og taka við stjórnartaumunum hjá Fjárstýringu. „Starfsemi Straums hefur breyst mjög mikið á undanförnum tólf mánuðum og samhæfð stjórnun fjármálasviða bankans er lykillinn að því að auka hag hluthafa okkar til langs tíma litið. Við erum staðráðin í því breikka hluthafahóp okkar til alþjóðlegra markaða og koma á föstu sambandi við greiningardeildir alþjóðlegra verðbréfamiðlana. Stephen hefur þá reynslu og hæfni sem þarf, til að ná þessum markmiðum,“ er haft eftir Fall í tilkynningunni.

Rætt var við William Fall um starfsmannabreytingar hjá Straumi í Viðskiptablaðinu í gær, föstudag.