Ísraelska fjártæknifyrirtækið Rapyd hyggst byggja upp höfuðstöðvar sínar fyrir allan Evrópumarkað hér á landi eftir að hafa fest kaup á kortafyrirtækjunum Korta og Valitor. Hið síðarnefnda var stærsta yfirtaka félagsins frá upphafi, enda nemur kaupverðið ríflega 12 milljörðum króna.

Framkvæmdastjóri félagsins, Arik Shtilman, gerir ráð fyrir að tvöfalda starfsmannafjölda hér á landi innan þriggja ára, og áttfalda tekjur og umfang á heimsvísu á sama tímabili.

Ísland varð fyrir valinu eftir að Brexit gerði Bretland, fyrsta valið fyrir höfuðstöðvar á Evrópumarkaði, að ófýsilegum valkosti, en Arik segir land og þjóð eiga margt sameiginlegt með Ísrael. Góður aðgangur að vel menntuðu starfsfólki með þekkingu á fjártækni hafi gert landið aðlaðandi kost.

Rapyd er alþjóðlegt fjártæknifyrirtæki með starfsemi á 105 mörkuðum um allan heim og skrifstofur í átta löndum. Höfuðstöðvar félagsins eru í Tel Aviv í Ísrael og þar fer vöruþróun þess fram. Viðskiptalíkanið felst í að veita fjármála- og fjártæknifyrirtækjum innviðaþjónustu, sem þau síðan byggja sínar sérhæfðu lausnir ofan á.

„Í sífellt tengdari og tæknivæddari heimi eru ótal mismunandi not fyrir þá fjármálainnviði sem við bjóðum upp á. Við hyggjumst bjóða upp á þá innviði og sameina þau ólíku kerfi sem þegar eru til staðar.“

Bæta við sig 100 manns næstu 18 mánuði
Þegar Rapyd keypti Korta fyrir rétt um ári segir Arik hafa verið ákveðið að staðsetja höfuðstöðvar félagsins fyrir starfsemi innan Evrópusambandsins á Íslandi. „Þegar við fórum svo að sjá alla möguleikana á Íslandi, sér í lagi góða þekkingu á fjármálum og fjártækni, ákváðum við að stækka við okkur með frekari fjárfestingu. Valitor býr yfir miklum mannauði sem við teljum að muni nýtast okkur vel, og í ofanálag fengum við dágóðan hóp viðskiptavina með í kaupunum.“

Með kaupunum á Valitor eru starfsmenn félagsins orðnir um 250 hér á landi, og til stendur að fjölga þeim um í það minnsta 100 fyrir lok næsta árs. „Við munum beina sjónum okkar sérstaklega að verkfræðingum fyrst um sinn, og leitast við að ráða þá unga og jafnvel beint úr námi til að kenna þeim á okkar kerfi.“

Margt líkt með Íslandi og Ísrael
„Við sáum margt sammerkt með Íslandi og Ísrael, þótt veðurfarið sé kannski heldur ólíkt. Löndin eru bæði lítil [íbúar Ísraels eru um níu milljónir] og hafa hlutfallslega mörg fjármálaog fjártæknifyrirtæki. Þrátt fyrir smæðina eru hér nokkur þokkalega stór greiðslumiðlunarfyrirtæki. Hér er því mikil sérþekking til staðar á sviði fjármála og fjártækni.“

Annað sem hann segir líkt með Íslandi og Ísrael er vinnustaðamenningin, sem hann segir afar frábrugðna því sem þekkist í Evrópu. Ólíkt evrópskri vinnustaðamenningu, þar sem fólk sé almennt kurteist og tali í kringum hlutina, sé starfsfólk hér mun hreinskilnara og beinskeyttara; það tali tæpitungulaust í stað þess að setja upp grímu (í óeiginlegri merkingu). Fólk hér sé enn fremur harðduglegt og metnaðarfullt.

Stór fiskur í lítilli tjörn
Arik segir Ísland koma sérstaklega vel út í samanburði við stærri markaði á borð við Frakkland, Þýskaland eða Holland, þar sem mun erfiðara gæti reynst að finna og ráða til sín það sérhæfða starfsfólk sem fyrirtækið þarf á að halda.

„Á þessum stóru mörkuðum eru margir stórir aðilar og gríðarleg samkeppni ríkir um þetta starfsfólk,“ segir hann, en fjártæknigeirinn hefur byggst hratt upp á síðustu árum hér á landi og stóru bankarnir hafa allir selt frá sér greiðslumiðlunarfyrirtæki sín nýlega.

Það má því lesa það úr orðum Ariks að hér sé meira um mannauð á þessu sviði sem auðvelt sé að ná í. Rapyd vildi með öðrum orðum vera stór fiskur í lítilli tjörn. Þrátt fyrir smæð íslenska markaðarins var því ákveðið að koma Evrópustarfseminni fyrir hér á landi.

Nánar er rætt við Arik í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .