Leiðandi fjárfestingarbankar á heimsvísu glíma við vaxandi erfiðleika sökum manneklu í kjölfar þeirru miklu fjölgunar sem hefur orðið í samrunum og yfirtökum á fjármálamarkaði. Þetta kemur fram í frétt Financial Times í gær þar sem jafnframt er haft eftir háttsettum framkvæmdastjórum á Wall Street að þessi þróun hafi verulega aukið líkurnar á því að til kostnaðarsamra mistaka muni koma, sökum aukins vinnuálags og þess að lægra settir starfsmenn séu í auknum mæli farnir að taka á sig ábyrgð sem sé langt umfram það sem gæti talist eðlilegt í ljósi lítillar reynslu þeirra.

Bankarnir hafa látið hjá líða að ráða til sín nægilega mikið af starfsfólki, meðal annars vegna þess að þeir höfðu ekki trú á því að sá mikli vöxtur sem hefur einkennt fjármálamarkaði undanfarin misseri myndi vara jafn lengi og raunin hefur orðið. Um þessar mundir viðurkenna margir stjórnendur sín á milli að sú staðreynd hafi leitt til þess að skortur sé á hæfu starfsfólki innan bankanna. Þrátt fyrir að vandamálið sé alvarlegt í New York og London, þá segja bankarnir að ástandið sé jafnvel enn verra á mörgum stöðum í Evrópu og Asíu.

Financial Times hefur eftir forstjóra hjá einum helsta fjárfestingarbankanum á Wall Street að hann hafi áhyggjur af því að þetta ástand muni gera það að verkum að fólk fari að stytta sér leiðir og hætti að gera viðunandi áreiðanleikakannanir. Slíkt myndi skaða orðspor fyrirtækjanna til lengri tíma.

Aukin samkeppni einkafjárfestingar- og vogunarsjóða


Framkvæmdastjórar hjá þekkum fjárfestingabönkum á borð við Goldman Sachs, Morgan Stanley, Citigroup, JPMorgan Chase, UBS, Credit Suisse og Lehman Brothers segja allir að fjárfestingarbankastarfsemi þeirra sé undir aukinni pressu. Flestir bankarnir fækkuðu verulega í starfsliði sínu eftir að hlutabréfabólan sprakk vorið 2000. Stjórnendur JPMorgan sögðu nýverið að bankinn hefði yfir að ráða helmingi færra starfsfólki sem ynni við ráðgjöf um samruna og yfirtökur en árið 2000, en engu að síður væru tekjurnar af þeirri starfsemi jafnmiklar. Að hluta til má rekja þá tregðu sem ríkir á meðal margra fjárfestingarbanka að ráða til sín fleira starfsfólk til reynslu þeirra frá þeim tíma þegar bankarnir þurftu að segja upp mörgu starfsfólki sínu.

Ástæðurnar eru hins vegar fleiri. Þrátt fyrir að fjárfestingabankar hafi aldrei haft jafn mikið að gera við að veita fyrirtækjum ráðgjöf um samruna og yfirtökur, þá fer hagnaðarhlutfall (e. profit margin) stóru bankanna minnkandi. Þóknunargjald sem bankarnir innheimta hefur farið lækkandi og fyrirtæki eru farin í sívaxandi mæli að ráða til sín fleiri en einn banka til ráðgjafar um sölu.

Mannekla fjárfestingarbankanna hefur einnig leitt til þess að háttsettir starfsmenn þeirra eru mjög hátt verðlagðir um þessar mundir - ekki síst vegna aukinnar samkeppni frá einkafjárfestingar- og vogunarsjóðum sem hefur fjölgað verulega undanfarin ár.

Í frétt Financial Times er greint frá því að JPMorgan Chase hyggist ráða til sín 462 starfsnema í sumar, sem er fjölgun um 39% frá því á síðasta ári. Aðrir bankar segjast ekki vilja þjálfa upp lægra setta starfsmenn einungis til að sjá síðar á eftir þeim til vogunarsjóða.