Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) kvað upp dóm um lögmæti iðnaðarmálagjalds í morgun og komst að þeirri niðurstöðu að lögin um iðnaðarmálagjaldið stæðust ekki ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.

Frá þessu er greint á vef Samtaka iðnaðarins (SI)en samtökin segja niðurstöðuna vera vonbrigði. Tvívegis hafi Hæstiréttur Íslands fjallað um málið og komist að annarri niðurstöðu en nú hafi MDE kveðið upp sinn dóm.

Fram kemur að Samtök iðnaðarins áttu ekki aðild að þessum dómsmálum enda þótt þau vörðuðu gjald sem iðnaðurinn í landinu greiðir og rennur til þeirra. Það var ríkið sem var varnaraðili í málinu enda fjallað um lög frá Alþingi sem hafa verið í gildi um áratugaskeið.

„Niðurstaðan hefur mikil áhrif á rekstur Samtaka iðnaðarins og þar með hagsmunagæslu iðnaðarins í landinu. Niðurstaðan mun einnig hafa áhrif á fjármögnun annarra hagsmunasamtaka og verkefna í atvinnulífinu,“ segir á vef SI en samkvæmt fjárlögum ársins 2010 nam iðngjaldið svokallað 300 milljónum króna.

Því má ljóst vera að fjármögnun samtakanna, sem greidd er úr vasa allra iðnrekenda í landinu, er í uppnámi ef fer sem horfir.

Fram kemur á vef samtakanna að SI munu þegar í stað óska eftir viðræðum við iðnaðarráðherra um framhald málsins „og hvernig íslensk stjórnvöld hyggjast bregðast við,“ eins og það er orðað á vef samtakanna.