Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg hefur tekið til meðferðar mál Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Geir taldi að í landsdómsmálinu gegn sér hafi íslenska ríkið brotið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu er lúta að réttlátri málsmeðferð fyrir dómi og reglu um enga refsingu án laga.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra kynnti málið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Bréfið var jafnframt sent til forseta Alþingis.

Hanna Birna segir í samtali við VB.is að í bréfinu óski dómstóllinn eftir svörum stjórnvalda við ákveðnum spurningum. Spurningunum á að svara fyrir 6. mars á næsta ári. „Nú fer í gang vinna innan ráðuneytisins um það hvernig við höldum á því og í hvaða farveg málið verður sett,“ segir hún.

Alþingi ákvað í september árið 2010 að ákæra Geir H. Haarde fyrir vanrækslu í starf í aðdraganda bankahrunsins. Fimm ákæruatriðum af sex var ýmist vísað frá dómi eða hann sýknaður af þeim. Geir var hins vegar sakfelldur fyrir að hafa ekki sett „mikilvæg stjórnarmálefni" með formlegum hætti á dagskrá ríkisstjórnarfunda eða „tekið þau upp" á þeim vettvangi.