Jarðvarmaverkefni  sem Mannvit í Ungverjalandi hefur þróað í samstarfi við þarlenda aðila er meðal 23 grænna evrópskra orkuverkefna sem hlutu styrk samkvæmt NER300 áætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mannvit en verkefni Mannvits hlaut tæpar 40 milljónir evra, en markmið þess er að örva jarðvarmakerfi til raforkuframleiðslu í suðausturhluta Ungverjalands. Ráðgert er að vinna verkefnið á næstu árum í nánu samstarfi sérfræðinga á sviði verkfræði og jarðvísinda í Ungverjalandi og á Íslandi.

Fram kemur að framlag ESB til verkefnis Mannvits í Ungverjalandi nemur um 40% af heildarkostnaði verksins sem er áætlaður ríflega 100 milljónir Evra. Verkefnið hefur verið þróað í samstarfi við ungverska fyrirtækið EU-FIRE og þróunarráðuneyti Ungverjalands sem valdi verkefnið til að taka þátt í NER300 ferlinu.

„Afgreiðsla NER300 sjóðsins er mikilvægur áfangasigur fyrir þróun starfsemi Mannvits í Ungverjalandi sem hefur rekið dótturfélag í Búdapest frá árinu 2007,“ segir í tilkynningunni.

„Undanfarin ár hefur Mannvit átt í sívaxandi samstarfi við fyrirtæki, sveitarfélög og stjórnvöld í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu um fjölþætta nýtingu jarðvarma til húshitunar, iðnaðar og rafmagnsframleiðslu. Um þessar mundir vinnur Mannvit að þróun rúmlega 10 jarðvarmaverkefna á svæðinu sem eru á mismunandi stigum, allt frá hugmynda- og hagkvæmnigreiningu að undirbúningi framkvæmda.“