Íslenska fyrirtækið Mannvit fann í síðustu viku heitt vatn í nágrenni borgarinnar Miskolc í Ungverjalandi, en Mannvit hefur síðustu ár starfað sem ráðgjafi ungverska orkufyrirtækisins Pannergy við jarðhitaverkefni þar í landi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mannvit en boranir hófust við Miskolc síðastliðið vor og í síðustu viku fannst heitt vatn á ríflega tveggja kílómetra dýpi.

Fyrstu mælingar benda til að borholan gefi á bilinu 70-90 sekúndulítra af 110-120 gráðu heitu vatni sem er talsvert framar vonum og bendir til að svæðið muni skila meiri nýtanlegum jarðvarma en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Fram kemur að þetta sé í annað skipti sem Mannvit finni heitt vatn í Ungverjalandi sem ráðgjafi Pannergy, en síðasta haust fannst heitt vatn nálægt bænum Szentlörinc í suðvesturhluta landsins.

Miskolc í austurhluta Ungverjalands er ein af þremur stærstu borgum landsins með um 200.000 íbúa. Áætlanir Pannergy gera ráð fyrir að í fyrsta áfanga verksins verði byggð hitaveita sem þjónar allt að 15.000 manns. Miðað við reynsluna frá Szentlörinc gætu opnast fleiri tækifæri fyrir íslensk þekkingarfyrirtæki á sviði jarðvarma við hönnun og byggingu hitaveitu í Miskolc.