Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Pál Kovács, vararáðuneytisstjóri þróunarmálaráðuneytis Ungverjalands, og Márk Győrvári, borgarstjóri Szentlőrinc, lögðu í gær hornstein að hitaveitu sem er hönnuð af verkfræðistofunni Mannviti fyrir ungverska einkafyrirtækið PannErgy. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Mannvit verkfræðistofa hefur sent frá sér.

Þetta er stærsta framkvæmdin til þessa í vinnslu endurnýjanlegrar jarðvarmaorku í Ungverjalandi en Mannvit hefur nú í rúm þrjú ár unnið að fjölbreyttum verkefnum vegna jarðhitanýtingar þar í landi.

Mannvit hefur annast allar nauðsynlegar jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknir vegna  staðsetningar á  tveimur borholum og hönnun þeirra, auk þess að hafa  umsjón og eftirlit með borframkvæmdum. Vinnsluholan gefur um 25 sekúndulítra af 87 gráðu heitu vatni á yfirborði. Mannvit sér ennfremur um hönnun hitaveitunnar, gerð útboðsgagna og hefur umsjón og eftirlit með allri framkvæmdinni. Þetta er fyrsti EPCm-þjónustusamningur íslenskrar verkfræðistofu á erlendri grundu. Gert er ráð fyrir að hitaveitan í Szentlörinc taki til starfa síðla hausts.