Sigurður Arnalds, fyrrverandi stjórnarformaður verkfræðistofunnar Mannvits, segir að fyrirtækið hafi hert mjög sóknina ábmarkaði erlendis. Fyrirtækið hafi ekki fundið fyrir samdrátti eftir efnahagshrunið fyrr en í lok árs 2012.

„Samdrátturinn hjá okkur varð ekki fyrr en í lok ársins 2012 og á þessu ári. Við horfum samt bjartsýn fram á veginn, bæði hér heima en einnig höfum við hert mjög sóknina á erlenda markaði. Þegar kemur að þeirri sókn þá höfum við fyrst og fremst hugsað um jarðhitann því við erum með forskot á aðra í þeim fræðum öllum. Við erum til dæmis núna að hanna jarðhitavirkjun á Filippseyjum en einnig erum við með verkefni annars staðar eins og í Ungverjalandi og Afríku. Í Noregi er gríðarleg eftirspurn eftir tækniþjónustu og þar erum við með skrifstofu í Þrándheimi. Annars vegar höfum við sótt inn á orkugeirann þar í landi og þá helst litlar vatnsaflsvirkjanir og raforkudreifingu og hins vegar inn á almenna innviði eins og hönnun samgöngumannvirkja og skóla. Við erum nýbúnir að gera samning um hönnun skóla í vesturhluta Noregs,“ segir Sigurður.

Hann segir að markmiðið hjá fyrirtækinu sé að erlend verkefni séu helmingur af veltunni en fyrirtækið eigi talsvert í land til að ná því markmiði. „Grunnurinn í okkar starfsemi þarf samt að vera hér heima. Hér býr fólkið og vill búa og við stöndum vel í samkeppni ef við getum unnið sem mest á heimavelli,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .