Verkfræðistofan Mannvit hefur gert samning um að kortleggja möguleika á a nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í Serbíu. Verkefnið er unnið fyrir námu- og orkumálaráðuneyti landsins og er Mannvit hluti af hóp fyrirtækja sem mun vinna verkefnið. Spænska ráðgjafafyrirtækið Eptisa leiðir hópinn.

Í tilkynningu frá Mannviti segir að sérstök áhersla verði lögð á að meta möguleika á nýtingu jarðhita í landinu. Einnig verði könnuð tækifæri til uppsetningar lífmassaorkuvera (CHP) í Serbíu. „Verkefnið mun hefjast um miðjan janúar og næstu 18 mánuðina mun Mannvit leiða starfið við að kortleggja jarðhitasvæði í Serbíu og gera í framhaldinu hagkvæmnisathuganir fyrir þrjú ákjósanlegustu svæðin. Þá mun Mannvit ásamt samstarfsaðilum taka þátt í samskonar vinnu við mat á því hvort aðstæður séu heppilegar fyrir lífmassaorkuver þar í landi.

Evrópusambandið styrkir verkefnið, sem er liður í að aðstoða Serbíu við að ná því markmiði sambandsins að endurnýjanlegir orkugjafar standi undir að minnsta kosti 20% af orkunýtingu aðildarlandanna árið 2020. Alls mun Evrópusambandið verja 1,5 milljónum evra í þetta undirbúningsverkefni.

Þetta er fyrsta verkefni Mannvits í Serbíu en fyrirtækið hefur undanfarin ár sinnt ýmsum verkefnum á sviði endurnýjanlegra orkugjafa í nágrannalöndunum. Mest hefur umfang starfseminnar verið í Ungverjalandi, þar sem Mannvit rekur skrifstofu, en einnig hefur fyrirtækið starfað í Slóvakíu, Króatíu, Rúmeníu og Grikklandi,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

„Þetta er mjög áhugavert verkefni fyrir okkur og eflir enn frekar starfsemi okkar í Mið-Evrópu, sem er orðin mikilvæg fyrir Mannvit. Evrópusambandið leggur mikið upp úr því að nýting endurnýjanlegra orkugjafa verði aukin í aðlildarlöndunum á næstu árum og á þessu svæði eru ýmis vannýtt tækifæri á þessu sviði. Þar getum við lagt til mikla íslenska sérfræðiþekkingu við nýtingu jarðhita eins og hefur sýnt sig, t.a.m. í Ungverjalandi. Við vonumst að sjálfsögðu til að þessi undirbúningsvinna sem við erum að ráðast í nú leiði síðan til enn frekari verkefna þegar fram í sækir,“ segir Tryggvi Jónsson, markaðsstjóri hjá Mannviti í tilkynningu.