Það er misskilningur að afnám gjaldeyrishafta hefjist á næstu vikum. Líklegast er að ekki verði hægt að kveða upp úr um heilsufar bankanna gagnvart afnámi hafta fyrr en undir lok nóvember.

Þetta sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri í ræðu sem hann hélt á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva.

„Það er mikilvægt fyrir hagvöxt í framtíðinni að Ísland komist á ný í eðlilegt viðskiptasamband við umheiminn, þ.m.t. að höftum á fjármagnshreyfingar verði aflétt og að aðgangur opnist að erlendum lánsfjármörkuðum á viðunandi kjörum. Við höfum sagt að forsendur fyrir því að afnema höftin séu þjóðhagslegur stöðugleiki, nægur gjaldeyrisforði og fjármálakerfi sem standist án hafta.

Fyrsta skilyrðið er uppfyllt og það næsta verður uppfyllt að lokinni þriðju endurskoðun áætlunarinnar með AGS. Horfur um að þriðja skilyrðið verði uppfyllt á næstu mánuðum hafa nú batnað með góðu árshlutauppgjöri tveggja af stóru viðskiptabönkunum og nýlegum dómi Hæstaréttar varðandi þá vexti sem gilda á lánum með óskuldbindandi (ólöglega) gengistryggingu," sagði Már.

Lengra í afnám hafta en talið hefur verið

„Það er þó misskilningur ef einhver heldur að tíminn í þessu sambandi sé talinn í vikum fremur en mánuðum. Það þarf að fá gjaldeyrinn í hús eftir þriðju endurskoðunina og líklegast er að ekki verði hægt að kveða upp úr um heilsufar bankanna gagnvart afnámi hafta fyrr en undir lok nóvember," sagði már á fundinum.

„Þá er rétt að hafa í huga að eins og nýlegur óróleiki á skuldabréfamarkaði sýnir felast ýmsar skammtíma hættur í afnámi haftanna og því mikilvægt að skrefin verði vel undirbúin.

Komi ekkert óvænt upp á færist tíminn þó nær og undirbúningur er í gangi innan Seðlabankans.“