Andlitsmynd Andy Warhol af Mao Zedong seldist á uppboði á 12,6 milljónir dollara eða því sem jafngildir 1.438 milljónum íslenskra króna. Uppboðið var haldið í Hong Kong, en ekki kemur fram hver kaupandi andlitsmyndarinnar var. Greint er frá þessu í frétt BBC.

Uppboðshaldarar gerðu ráð fyrir því að myndin myndi seljast á 15 milljónir dollara. Kínversk stjórnvöld hafa löngum reynt að koma í veg fyrir að andlitsmyndinni yrði dreift í Kína, en þau fylgjast grannt með hvernig Mao birtist fyrir augum almennings. Myndirnar af Mao eru byggðar á ljósmynd af Mao í „litla rauða kverinu“.

Warhol hannaði myndirnar árið 1972 sama ár og Richard Nixon sótti Kína heim og hefur myndin mikið sögulegt gildi og er ein af þekktustu myndum 20. aldarinnar.