Már Guðmundsson seðlabankastjóri var aðeins einu sinni í minnihluta í peningastefnunefnd á vaxtaákvörðunarfundum hennar á tímabilinu 2009 til 2014. Þetta kemur fram í Peningamálum sem Seðlabankinn gaf út nú í morgun.

Þar kemur fram að á tímabilinu hafi nefndin haldið 49 vaxtaákvörðunarfundi. Í rúmlega helmingi tilvika hafi nefndin kosið að halda vöxtum óbreyttum, í 35% tilvika hafi vextir verið lækkaðir en í 12% tilvika hafi þeir verið hækkaðir.

Einnig kemur fram að Anne Sibert, sem var annar af tveimur utanaðkomandi sérfræðingum í nefndinni frá febrúar 2009 til febrúar 2012, var oftast í minnihluta eða í 30% tilvika. Þar á eftir kom Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, en hann var í minnihluta í 27% tilvika.

Líkt og áður segir var Már Guðmundsson aðeins einu sinni í minnihluta á tímabilinu, en Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri var ósammála meirihlutanum í þrjú skipti.

Nánar má lesa um atkvæðaskiptingu nefndarmanna í Peningamálum.