*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Innlent 31. mars 2017 08:14

Már: Aðhaldsstig markast ekki af ofspá

Seðlabankastjóri sagði á ársfundi Seðlabankans að aðhaldsstig peningastefnunnar nú markist ekki af fyrri ofspám Seðlabankans á verðbólgu.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hélt í gær ræðu á ársfundi bankans. Í máli hans vísaði hann til þess að margir hafa að undanförnu kvatt sér hljóðs og talið meginvexti Seðlabankans allt of háa miðað við ríkjandi ástæður og vísa til að mynda til mun lægri vaxta í helstu viðskiptalöndum, að verðbólga hafi verið undir markmiði í þrjú ár og að Seðlabankinn hafi á undanförnum misserum spáð of mikilli verðbólgu.

Már segir að umræða um hvort aðhaldsstig peningastefnunnar sé í samræmi við markmið bankans og horfur á hverjum tíma sé eðlileg. Eins og sakir standa eru meginvextir bankans 5% og samsvarandi raunvextir því um tvö og hálf prósent. „Miðað við stöðu hagsveiflunnar og verðbólgu undir markmiði jafngildir þetta að jafnvægisraunvextir séu eitt og hálft prósent sem verður að teljast lágt í ljósi þess að vöxtur framleiðslugetu er til lengdar töluvert meiri. Sögulega eru þetta ekki háir vextir þó þeir séu það í alþjóðlegu samhengi,“ sagði Már.

Hann segir að skýringanna á því er hins vegar að leita í mjög lágum vöxtum erlendis fremur en óeðlilega háum vöxtum hér á landi. „Mjög víða um heim hefur verðbólga verið fyrir neðan verðbólgumarkmið og seðlabankar hafa ofspáð verðbólgu síðustu misserin og virðist ekki skipta máli hvert vaxtarstigið er og hvar í hagsveiflunni viðkomandi lönd séu stödd,“ sagði hann. Már sagði það benda sterklega til þess að um alþjóðlega þætti sé að ræða eins og líkt hrávöruverð og viðnám gegn launahækkunum í iðnríkjum.

Seðlabankastjóri tók jafnframt fram að aðhaldsstig peningastefnunnar nú markist ekki af fyrri ofspám Seðlabankans á verðbólgu. „Peningastefnunefnd tekur mið af spám en setur vextina ekki í blindni eftir þeim og aðlagar aðhaldsstigið í ljósi framvindunnar. Spárnar sjálfar eru svo aðlagaðar í hverjum ársfjórðungi. Spár fyrir einum til tveimur árum byggðust á óbreyttu gengi krónunnar og mun lægra gengi en nú er, og á viðsnúningi í alþjóðlegum hrávöruverðum sem átti samkvæmt alþjóðlegum spám aðgerast fyrr  og  meir  en  raunin  hefur  orðið,“ tók seðlabankastjóri jafnframt fram.