Í ræðu sinni á ársfundi SA, sem fram fór í gær, sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri að við mótun ramma peningastefnunnar eftir höft þurfi að taka tilllit til þeirrar reynslu sem fengist hefur á undanförnum árum af því að reka sjálfstæða peningastefnu í litlum og opnum hagkerfum með óheftar fjármagnshreyfingar, í heimi sem verður æ meira fjármálalega samþættur.

Már sagði að síðasta sumar og haust hafi mikið fjármagnsstreymi erlendis frá snúið við halla vaxtaferilsins. Miðlun peningastefnunnar fari í æ ríkari mæli eftir gengisfarveginum, en sú miðlun sé óviss og sveiflukennd þar sem gengið sveiflist með straumum spákaupmennsku.

Már lagði til að meginmarkmið peningastefnunnar yrði áfram stöðugt verðlag, en í stað nánast hreins flotgengis kæmi stýrt flot þar sem markmiðið væri að draga úr óhóflegum sveiflum og draga úr skammtímaflökti í gengi.

Framkvæmd peningastefnu verður flóknari

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Már að vegna þess hversu mikið gjaldeyrisforðinn hafi stækkað sé Seðlabankinn miklu betur í stakk búinn til að takast á við fjármagnsútstreymi en áður. „Nú þegar stendur fyrir dyrum að losa fjármagnshöftin almennt, þá verðum við að búa okkur undir það að framkvæmd peningastefnunnar verði flóknari. Það er að sýna sig æ meira í þessum fjármálalega samþætta heimi sem við erum í að lítil opin lönd með óheftar fjármagnshreyfingar eiga erfiðara með að reka sjálfstæða peningastefnu heldur en var hér fyrr á árum.“

Már segir að þegar vextir eru hækkaðir með það að markmiði að draga úr þenslu hafi það þau hliðaráhrif að erlendir aðilar sjá að hér er betra að fjárfesta.

„Við getum náð verðbólgumarkmiði til lengdar í gegnum þróun gengisins, en það er ekki besta leiðin. Þannig að ég var að benda á það [í ræðunni, innsk. blm.] að við þyrftum kannski að skoða það að ef þessi þróun gengur mjög langt þá værum við með á hillunni tæki sem við gætum beitt til þess að draga úr ávinningi vaxtamunarviðskiptanna og þannig ýta þeim svolítið frá okkur.“

Óeðlilegir vextir í Evrópu

Samtök atvinnulífsins hafa bent á að raunstýrivextir á Íslandi eru hærri en í öðrum OECD-ríkjum . Nokkuð hörð gagnrýni kom fram á háa stýrivexti á fundi SA í gær.

Spurður um ástæður þess að stýrivextir eru hærri á Íslandi en í öðrum OECD-ríkjum segir Már að það sé vegna þess að okkur gengur bara miklu betur. „Það eru ekki íslensku vextirnir sem eru óeðlilegir, það eru náttúrulega vextirnir í Evrópu sem eru óeðlilegir. Þar eru nafnvextir neikvæðir.

Við erum í þeirri stöðu að hér er full atvinna og við erum að byrja að sigla inn í ástand þar sem hætta á ofhitnun hagkerfisins er til staðar. Og við erum kannski með vextina rétt fyrir ofan það sem má ætla að þeir séu alla jafna í jafnvægi. Ef hagkerfið er að vaxa um 2,5-3% eru jafnvægisraunvextirnir einhvers staðar þar nálægt. Ef þú bætir síðan verðbólgumarkmiðinu við ertu kominn með 5-5,5% og nú erum við í 5,75%. Þannig að við erum alveg á eðlilegum stað hvað það varðar.

Ég held að fólk ætti bara að fagna því að við getum verið með eðlilega vexti í landinu, meðan allt er í kringum okkur í þannig ástandi að þeir eru með neikvæða raunvexti og jafnvel neikvæða nafnvexti.“