Már Guðmundsson sagði í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans að væntanlegt útboð vegna aflandskróna gæti farið fram á fyrri hluta ársins og að í framhaldinu ætti að óbreyttu að vera hægt að fara tiltölulega hratt í losun hafta á innlenda aðila.

„Seðlabankinn keypti mikið af gjaldeyri á síðasta ári og hefur haldið því áfram það sem af er þessu ári. Samtals frá því að gjaldeyriskaup hófust um miðjan maí 2013 og til loka markaða í gær hefur bankinn keypt gjaldeyri umfram sölu sem nemur 471 milljarða króna. Hluta þessa fjár hefur verið varið til að greiða niður erlend lán en hluta til að styrkja gjaldeyrisforðann. Hvort tveggja leiðir til þess að sá hluti forðans vex sem fjármagnaður er í krónum. Í lok febrúar nam forðinn 721 milljörðum króna og sá hluti sem fjármagnaður er í krónum 382 milljörðum. Þetta hefur auðvitað minnkað erlenda lausafjáráhættu þjóðarbúsins verulega en heggur um leið stór högg í afkomu Seðlabankans ef þessi staða verður viðvarandi þar sem innlendir vextir eru mun hærri en möguleg erlend ávöxtun forðans.“

Miðað við stöðuna í lok síðasta árs nam neikvæður vaxtamunur á gjaldeyrisjöfnuði bankans á ársgrundvelli 18 milljörðum króna að sögn Más.

„Væntanlegt útboð vegna aflandskróna gæti hins vegar gjörbreytt þessari stöðu og því ekki ástæða til að örvænta um afkomu bankans auk þess sem það er beinlínis kjarninn í starfsemi seðlabanka að láta þjóðhagsleg markmið ganga fyrir eigin afkomu. Jafnframt gæti þessi staða gert það mögulegt að stærri hluti vandans verði leystur í útboðinu með endanlegri hætti en áður var útlit fyrir. Undirbúningur útboðs er nú kominn vel á veg og vænta má að dagsetning þess og fyrirkomulag verði kynnt tímanlega til að það geti farið fram á fyrri hluta ársins. Í framhaldinu ætti að óbreyttu að vera hægt að fara tiltölulega hratt í losun hafta á innlenda aðila enda skapa viðskiptaafgangur, gjaldeyrisinnstreymi og öflugur gjaldeyrisforði kjöraðstæður til þess. Hins vegar er mikilvægt að ná farsælli niðurstöðu varðandi aflandskrónur áður en almenn losun fjármagnshafta á innlenda aðila á sér stað.“