Afnema þarf gjaldeyrishöft eins fljótt og auðið er. Höftin voru nauðsynleg á sínum tíma en nú er verkefnið að breytast. Það þarf að auka hagvöxt og tengja Ísland við alþjóðlega fjármálamarkaði.

Þetta sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri á fundi Viðskiptaráðs í morgun. Már var spurður að nákvæmari tímasetningu á afnámi gjaldeyrishafta en áður hefur verið gefið út.

Már sagði að erfitt væri að svara með mikilli nákvæmni en hann gæti þó sagt að ekki væru uppi áform um að þau verði til frambúðar. Höftin byggi á lagagrunni og renna út í ágúst 2011. Bankinn vinni nú að nýrri áætlun um afnám gjaldeyrishafta og er ætlunin að sú áætlun verði tilbúin fyrir mars á næsta ári.

Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri tók í sama streng og Már í pallborðsumræðum fundarins. Hann sagði höftin ekki geta verið til frambúðar vegna þess að Ísland sé hluti af Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Innan EES séu slík höft óheimil en séu nú leyfileg tímabundið á Íslandi með samþykki og vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.