Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að töluverðar líkur séu á að væntingar aðila kjarasamninga um lækkun vaxta muni ná fram að ganga. Áföll og minni spenna í þjóðarbúskapnum skapi að öðru óbreyttu tilefni til lægri raunvaxta.

„Ólíkt því sem er í mörgum viðskiptalöndum okkar er svigrúm hagstjórnar til að bregðast við niðursveiflu töluvert hér á landi vegna góðrar stöðu ríkissjóðs og vaxtastigs. Framan af þessu ári dró það hins vegar úr svigrúmi peningastefnunnar að verðbólguvæntingar höfðu hækkað þegar leið að árslokum 2018 og voru lengri tíma verðbólguvæntingar vel fyrir ofan markmið. Ástæðurnar voru aðallega meiri verðbólga og óvissa um niðurstöðu kjarasamninga sem færðust nær í tíma,“ segir Már í greininni.

Már segir að ofangreindar aðstæður hafi breyst nánast yfir nótt þegar kjarasamningar á almennum vinnumarkaði náðust á nótum sem samrýmdust mun betur verðbólgumarkmiði en óttast hafði verið. „Einu daglegu vísbendingarnar sem tiltækar eru um verðbólguvæntingar er munur á vöxtum óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisbréfa. Þetta svokallaða verðbólguálag felur hins vegar ekki einungis í sér verðbólguvæntingar heldur er þar einnig um að ræða breytilegt áhættuálag. Því er ekki alltaf einhlítt hvernig beri að túlka breytingar á verðbólguálaginu. Þá getur erlent fjármagnsinnstreymi á skuldabréfamarkað skekkt myndina ef erlendir aðilar sækja meira í óverðtryggð bréf eins og raunin hefur verið. Þannig lækkaði verðbólguálag marktækt í framhaldi af því að sérstök bindiskylda á fjármagnsinnstreymi var færð í núll snemma í mars. Verðbólguálagið lækkaði svo enn frekar í framhaldi af kjarasamningunum,“ segir í grein Más.

Þá segir Már í greininni að lítill vafi sé um að verðbólguvæntingar til lengri tíma hafi lækkað og séu komnar mun nær markmiði. „Þannig var tíu ára verðbólguálag um 3,8% í byrjun mars en það lækkaði í um 3% dagana á eftir að kjarasamningar náðust og hafa í stórum dráttum haldist þar síðan. Það hefur hjálpað til í þessu sambandi að gengi krónunnar hefur ekki gefið eftir í framhaldi af losun aflandskróna og falli Wow í mars. Þar eiga inngrip Seðlabankans lítinn hlut að máli. Meira máli skiptir að aflandskrónur hafa farið hægt út og lækkun sérstakrar bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi í núll hefur unnið á móti. Þá hækkaði gengið í framhaldi af kjarasamningum og er nú svipað og þegar aflandskrónur voru losaðar.“