Með stöðugum ríkisfjármálum Íslands á sama tíma og dregið er úr örvunaraðgerðum í ríkisfjármálum í heiminum er Seðlabanki Íslands tilbúinn til að draga úr notkun þjóðhagsvarúðartækja sem takmarka að fjármagn geti flætt hratt inn í landið. „Við erum að lækka vaxtastig okkar á sama tíma og restin af heiminum er að hækka sitt,“ segir Már í viðtali við Bloomberg fréttastofuna sem tekið var á mánudag.

„Það mun draga úr hvatanum til vaxtamunaviðskipta og ef það tekst munum við draga úr gjaldeyrisforða okkar. Það er ekki ósk okkar að hafa gjaldeyrisforðann til frambúðar.“

Segir krónuna haga sér meira eins og venjulegan gjaldmiðil

Á síðastliðnu ári hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti fjórum sinnum, sem og tekist að stöðva mikla styrkingu krónunnar að því er segir í fréttinni. Núna geti hjálp hins vegar verið að koma erlendis frá með áætlunum Evrópska seðlabankans um að fara að draga úr þeim gríðarlegu aðgerðum í formi magnbundinnar íhlutunar til að örva efnahagslíf álfunnar.

Sagði Már að krónan væri farin að haga sér meira og meir eins og venjulegur gjaldmiðill og styrkur hennar sé fyrst og fremst vegna sterkrar stöðu grundvallarþátta í verðmyndun hennar. Er haft eftir honum að í raun geti krónan verið nú með hærra jafnvægisverð vegna sterks aðhalds í ríkisfjármálum og hreinsunar á fjármálamarkaði.

„Mat okkar, sem og mat AGS og OECD er að þetta er í almennu samræmi við grundvallarþættina,“ segir Már um styrkingu krónunnar. „Hún er ekki drifin áfram af spákaupmennsku. Þetta byggir ekki á ójafnvægi.“

Sagði hann bankann hafa að mestu hætt afskiptum af markaðnum, sem væri skýringin á auknum sveiflum. Á sama tíma væru lífeyrissjóðirnir í stórum stíl farnir að flytja fé af landi brott sem væri fínt, því það hjálpaði hvort tveggja peningastefnunni og dragi úr hættu á ofhitnun hagkerfisins.

Segir aðhaldssama peningastefnu hafa hjálpað til

„Auðvitað var peningastefnan mjög aðhaldssöm í upphafi ársins sem hjálpaði til við að hægja á efnahagslífinu,“ sagði Már. „Hún er aðeins minna aðhaldssöm í dag. Ekki mikið ein eilítið. En hún er samt sem áður aðhaldssöm sem kemur í veg fyrir ofhitnun.“

Vísar frétt Bloomberg jafnframt í síendurtekin ummæli Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra um nauðsyn þess að binda gengi krónunnar við erlenda gjaldmiðla. En því hafi verið hafnað af bæði forsætisráðherra og Seðlabankanum. Segir Már það misskilning í umræðunni um verðbólgu að innflæði fjármagns sé það eina sem haldi henni niðri. Þar megi ekki gleyma peningastefnunni.

„Ef við viljum gefast upp á henni núna á þeim tímapunkti sem hún er að ná árangri verður valkosturinn að vera sérlega góður,“ sagði Már. „Ég er ekki viss um að sá valkostur sé til. Það á eftir að koma í ljós.“