Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að ef þróun á eignamörkuðum hér á landi verður með þeim hætti að hún ógni fjármálastöðugleika væri ástæða til að hækka stýrivexti og jafnvel beita öðrum tækjum eins og breyttum reglum um lánshlutföll og eiginfjárhlutföll í skuldsettum eignakaupum. Hann sagði á kynningarfundi í Seðlabankanum í dag að eignabólur væru í sjálfu sér ekki hættulegar og það væri ekki Seðlabankans að bjarga fólki frá því að tapa fé í slíkum bólum. Skuldsettar eignabólur gætu hins vegar stefnt fjármálastöðugleika í hættu, en ekki væri ástæða til að óttast slíkt núna.

Már sagði jafnframt að þessi þróun, þ.e. veikari hagvöxtur og hækkanir á eignamörkuðum, væri ekki bundin við Ísland. Ástand á fjármálamörkuðum hafi stórbatnað og tvær ástæður væru mögulegar fyrir þeirri þróun. Annað hvort væri um að ræað eignabólur í skjóli hafta. Sagði hann að höft væru hættulegt meðal og eins og með slík meðöl væri nauðsynlegt að hætta gjöfinni áður en hliðarverkanirnar verði meiri en batinn sem að er stefnt. Hinn möguleikinn væri sá að markaðir séu leiðandi og því gefi hækkun eignaverðs vísbendingu um meiri bata í framtíðinni og betri tíð.

Hvað varðar afnám haftanna lagði Már áherslu á að til að geta hafið afnámið á næsta ári þyrfti ríkið að standa við það að vera ekki með neina nettó lánsfjárþörf það árið. Skref í átt að afnámi hafta myndu hafa áhrif á fjármögnunarkjör ríkisins og því sé staða ríkissjóðs mjög mikilvæg fyrir afnám haftanna.