Fjármálakerfið stendur traustari fótum en þegar Fjármálastöðugleiki var gefinn út síðastliðið vor. Efnahagsbati hófst á seinni hluta síðasta árs og hefur samkvæmt nýjustu tölum verið að sækja í sig veðrið. Honum hefur á þessu ári fylgt meiri atvinna og aukinn kaupmáttur launa.

Þetta kemur fram í leiðara Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, í riti Seðlabankans um fjármálstöðugleika sem birt var í dag.

Til viðbótar ofangreindu segir Már að lægri innlendir vextir og endurskipulagning skulda hafi bætt fjárhagsstöðu heimila.

„Staða fyrirtækja virðist á heildina litið einnig hafa batnað, en hún er hins vegar ákaflega breytileg,“ segir Már.

„Þannig hefur afkoma margra fyrirtækja í útflutningi verið góð vegna lágs raungengis krónunnar og hagstæðs afurðaverðs. Góða stöðu hafa fyrirtækin m.a. notað til að greiða niður skuldir. Fyrirtæki í öðrum greinum sem ekki hafa lokið sinni fjárhagslegu endurskipulagningu standa mörg hver ekki undir skuldsetningunni.“

Már segir að á heildina litið hafi endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja hjá bönkum og öðrum lánastofnunum miðað töluvert áleiðis að undanförnu. Skuldsetning heimila og fyrirtækja fari því minnkandi, bæði vegna endurgreiðslu lána í samræmi við skilmála og vegna niðurfærslu og afskriftar skulda.

„Um þessar mundir er áætlað að skuldir heimila og fyrirtækja sem hlutfall af landsframleiðslu séu um 314% og hafi lækkað um sem nemur rúmri einni landsframleiðslu frá hámarki þeirra um mitt árið 2009,“ segir Már.

„En ástandið er viðkvæmt. Skuldir einkageirans hafa að sönnu lækkað, en þær eru enn miklar. Sama má reyndar einnig segja um skuldir hins opinbera. Ný áföll, t.d. vegna alþjóðlegrar efnahagsþróunar, gætu því aukið vanskil á ný. Enn sem komið er hafa áhrif ríkisskulda- og bankakreppunnar á evrusvæðinu verið lítil hér á landi. Þar virðist einkum tvennt skipta máli. Í fyrsta lagi eru bæði ríkissjóður og bankarnir lítt háðir erlendri fjármögnun og gjaldeyrishöftin veikja áhrif hræringa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum á innlendan fjármálamarkað. Í öðru lagi er samsetning útflutnings með þeim hætti að hann er minna háður hagsveiflu í einstökum viðskiptalöndum en reyndin er í ýmsum öðrum litlum löndum sem reiða sig meira á útflutning á iðnaðar- og tæknivöru. Verði hins vegar mun dýpri samdráttur í Evrópu en nú er spáð mun það óhjákvæmilega hafa margvísleg neikvæð áhrif hér á landi. Erlendum ferðamönnum gæti t.d. fækkað og dregið úr beinni erlendri fjárfestingu.“

Már Guðmundsson á fundi AGS í Hörpunni
Már Guðmundsson á fundi AGS í Hörpunni
© vb.is (vb.is)