Hagvöxtur er að aukast á heimsvísu á nýjan leik. Þrátt fyrir það er hagvöxturinn hægur og ýmsir áhættuþættir enn til staða. Vísbendingar eru um að efnahagur þróaðri ríkja sé að taka við sér á sama tíma og hægt hafi á vexti í mörgum nýmarkaðríkjum, að því er fram kemur í ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í ályktuninni segir jafnframt að hagvöxtur í þróunarríkjunum hafi verið stöðugur.

Ársfundur og fundur fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins stóð yfir í Bandaríkjunum um helgina ásamt Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og fleirum úr stjórnsýslunni. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti fundinn en hann er fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Fram kemur í tilkynningu frá Seðlabankanum þar sem fjallað er um ársfundinn að Már sat m.a. fundi með öðrum seðlabönkum, alþjóðlegum fjármálastofnunum, matsfyrirtækjum og stjórnendum og starfsfólki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá sótti seðlabankastjóri fund stýrinefndar sem hann á sæti í um alþjóðlegar reglur um fjármagnshreyfingar og skipulagt skuldauppgjör.