Már Wolfgang Mixa, aðjúnkt í fjármálum við Háskólann í Reykjavík segir vaxtastig verða að minnka hér á landi vegna mikils vaxtamunar við útlönd.

Er hann einn þeirra fræðimanna HR sem heldur örfyrirlestur í hádeginu í dag á árlegu Fyrirlestramaraþoni skólans sem nú er haldið í sjöunda sinn, en hver fyrirlestur er að hámarki sjö mínútna langur og hefst dagskráin klukkan 12 og stendur yfir til 13:00.

Fyrirlestur Más ber yfirskriftina Hinn ómögulegi þríhyrningur - vaxtastig á Íslandi, en ómöguleikaþríyrningur peningastefnunnar segir að einungis sé hægt að hafa tvennt af þessu þrennu við lýði í hvert sinn: Frjálst flæði fjármagns, stöðugan gjaldmiðil eða sjálfstæða peningastefnu.

Ef einhvern tíman rétti tími til upptöku evru væri það nú

„Nú er umræða um það að lækka vaxtastig á Íslandi sem skýtur kannski skökku við því að í flestum hagfræðikúrsum er kennt að vaxtastigið hækkar þegar reynt er að hafa hemil á hagsveiflunni,“ segir Már.

„Síðan á vaxtastigið að lækka þegar veita á innspýtingu inn í hagkerfið, en núna erum við í þeirri stöðu að vera með mjög sterka krónu, en tæpast nokkur maður er tilbúinn til þess að taka á sig þá miklu hækkun sem verið hefur á krónunni síðustu árin.

En á sama tíma eru flestir sammála um að vilja hafa hér frjálst flæði fjármagns. Nú má segja að um helmingurinn af þeim hluta horns ómöguleikaþríhyrnings peningamála sé nú við lýði, það er við höfum frjálst flæði fjármagns, en þó þannig að útlendingar geta ekki fjárfest í skuldabréfum á Íslandi.

En þeir eru að fjárfesta í öðrum eignum, þeir hafa verið að kaupa hlutabréf í fasteigna- og tryggingafélögum, en verðgildi þeirra hefur sveiflast í takt við vaxtanæmni. Nú er nefnilega lítið vit í því að flytja peninga erlendis þegar þú getur keypt hér verðtryggð skuldabréf með um það bil þrjú prósent raunvexti.

Það var galin tímasetning að ætla að ganga í evruna skömmu eftir hrun, þegar íslenska krónan var í botni, en ef það væri einhvern tíman rétti tíminn þá væri það núna og mætti þá jafnvel velja veikara viðmiðunargengi er núna, þegar greiningardeildirnar eru að keppast um að koma með nýjar stærðargráður í því hversu dýrt Ísland er.“