Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að koma verði í ljós hvort ríkissjóður geti sótt fjármagn á alþjóðlegan lánsfjármarkað verði Icesave hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Meta þurfi stöðuna upp á nýtt. Höftin muni því vara lengur og Seðlabankinn verði að gefa í að kaupa gjaldeyrisforða í stað þess að fá hann að láni. Það muni væntanlega þýða lægra gengi, minni kaupmátt og meiri verðbólgu.

Þetta sagði Már á opnum fundi þriggja þingnefnda með seðlabankastjóra í morgun þegar hann var spurður að því af Oddnýju G. Harðardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, hvaða áhrif Icesave hefði á áætlun um afnám gjaldeyrishafta.

Samhljómur um fyrstu skref í afnámi hafta

Már sagði að það virtist vera samhljómur um að fyrsta skrefið í afnám gjaldeyrishafta myndi felast í því að „hleypa út og binda aflandskrónur". Það yrði ekki gert með þeim hætti að gjaldeyrisforði Seðlabankans eða gengi krónunnar yrði sett í hættu. Þessi fyrstu skref yrði hægt að stíga án þess að Icesave væri leyst.

Seðlabankastjóri sagði að þegar kæmi að því að lyfta höftum almennt á útflæði yrði að vera ljóst að ríkissjóður hefði traust lánshæfi á erlendum mörkuðum. Það muni taka einhvern tíma, mánuði eða misseri.