Bankaráð Seðlabankans hefur komist að þeirri niðurstöðu að Már Guðmundsson þurfi að endurgreiða Seðlabankanum málskostnað vegna dómsmáls sem hann höfðaði á hendur bankanum þar sem hann taldi laun sín vera lægri en þau áttu að vera. Niðurstaða ráðsins byggir á því að formaður bankaráðs hafði ekki heimild til þess að samþykkja að bankinn myndi leggja út fyrir málskostnaði Más, en hann tapaði dómsmálinu í Hæstarétti.

„Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 30 júní s.l. kemur m.a. fram að hvorki lög um Seðlabanka Íslands né reglugerðir gera ráð fyrir að formaður bankaráðsins hafi sjálfstæðar valdheimildir. Bankaráðið er fjölskipað stjórnvald og þarf því að bera ákvarðanir um útgjöld, sem falla undir verksvið ráðsins, upp í bankaráðinu til formlegrar afgreiðslu. Þá kemur fram í úttektinni að fyrrum formaður hafði ekki formlega heimild bankaráðs þess tíma sem heimilaði greiðslu málskostnaðar seðlabankastjóra vegna fyrrgreindrar málsóknar," segir í tilkynningu á vef Seðlabankans.

„Í ljósi efnisatriða málsins er það niðurstaða meirihluta bankaráðs að heimila ekki nú greiðslurnar með sérstakri ályktun. Bankaráðið mun því ekki samþykkja að gera málskostnaðinn að rekstrarkostnaði bankans.“

Minnihluti bankaráðs ósammála ákvörðuninni

Minnihluti ráðsins lýsti sig hinsvegar ósammála þessari niðurstöðu og taldi að efnis- og sanngirnisrök væru fyrir því að málskostnaðurinn yrði ekki endurkrafinn frá seðlabankastjóra.

Í sérstakri bókun minnihlutans segir: „Ákvörðun um að reka dómsmálið í upphafi lá fyrst og fremst hjá bankastjóranum sjálfum. Hins vegar er ljóst að ákvörðun um að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms var studd af þáverandi formanni bankaráðs. Því til viðbótar hefur seðlabankastjóri staðfest að hann hefði ekki áfrýjað málinu án vilyrðis um greiðslu málskostnaðar. Þáverandi bankaráðsformaður hefur einnig staðfest að svo sé. Þá var seðlabankastjórieinnig í góðri trú að þáverandi bankaráðsformaður gæti gefið vilyrði fyrir greiðslu áfrýjunarkostnaður.“