„Við reynum ekki að koma markaðnum á óvart. Okkur finnst að markaðurinn hafi tilhneigingu til að láta skammtímagárur hafa of mikil áhrif á mat sitt,“ segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. Hann situr nú ásamt Þórarni G. Péturssyni, aðalhagfræðingi bankans, þar sem þeir fara yfir vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar bankans.

Greint var frá þeirri ákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabankans í morgun að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum í 4,75%. Það var þvert á spár markaðsaðila sem höfðu gert ráð fyrir 0,25% hækkun.

Már benti á að í desember þegar stýrivöxtum var haldið óbreyttum í kjölfar 0,25% hækkun í nóvember hafi komið fram að mikið þyrfti að gerast til að breyta nafnvöxtum.

„Það hefur ekki mikið gerst þótt myndin hafi færst í óhagstæðar verðbólguhorfur. Markaðurinn má ekki taka okkar signali þannig að það sé öruggt að vextir hækki í mars. En við ídeal aðstæður er best að vaxtabreytingar séu væntar,“ sagði Már.