Ekki er vandamál að draga úr vægi verðtryggingar í fjármálakerfinu. Fólk má þó ekki gleyma því að til lengri tím eru óverðtryggð lán dýrari og áhættusamari fyrir lántakendur, þar á meðal heimilin, en verðtryggð, að sögn Más Guðmundssonar. Hann segir greiðslubyrði óverðtryggðra lána þyngri í upphafi lánstíma auk þess sem endurskoða þurfi vexti oftar.

Már er nú gestur á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis ásamt Arnóri Sighvatssyni aðstoðarseðlabankastjóra og Rannveigu Sigurðardóttur. Umræðuefnið eru störf peningastefnunefndar Seðlabankans.

Efnahags- og viðskiptanefnd greindi frá því á fimmtudag frá bókun sinni þess efnis að hefja undirbúning þverpólitískrar áætlunar um að minnka vægi verðtryggingar hér. Fram kemur í bókun nefndarinnar að stefnt sé að því að málið verði lagt fyrir Alþingi 15. febrúar á næsta ári.

Már sagði helstu hættuna af því að afnema verðtrygginguna þá að í kjölfarið geti sparnaður étist upp eða skyndilegar breytingar orðið á nafnvöxtum. Hann rifjaði upp að bakgrunnur þjóðarsáttar á sínum tíma hafi verið að koma verðtryggingunni á.