Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að enn megi finna rangfærslur í skrifum Týs um gömlu bankana í aðdraganda hruns. Hann hefur skrifað Viðskiptablaðinu bréf sem hér er birt í heild sinni:

Enn um rangfærslur Týs

Hinn 17. febrúar síðastliðinn voru birtar á vef Viðskiptablaðsins athugasemdir mínar við pistil sem birtar voru á vef blaðsins undir dulnefninu Týr. Taldi ég að í þeim pistli væri að finna margvíslegar rangfærslur varðandi skoðanir mínar og atferli. Þar ber hæst fullyrðingu Týs um að ég hafi haldið því fram á fundi með þáverandi forsætisráðherra og fleiri ráðherrum sem haldinn var 7. ágúst 2008 „að það væri ódýrara að bjarga bönkunum en að láta þá hrynja“. Í athugasemdinni mótmælti ég þessu og vísaði til minnisblaðs sem ég lagði fram á fundinum og ræðu sem ég hélt í maí 2007. Þeir sem lesa það efni sjá að almenn og afgerandi fullyrðing af ofangreindu tagi væri í mótsögn við það sem þar stendur  og því einkennilegt ef ég hefði látið nákvæmlega þessi orð falla.

En Týr er ekki af baki dottinn því að hann hefur nú birt svar við athugasemd minni . Of langt mál yrði að elta ólar við það allt en ég verð þó að nefna tvennt. Það fyrra lýtur að því að „bjarga eða ekki bjarga bönkum“. Í því efni segist Týr standa við fyrri orð enda sé fullyrðingin tekin upp úr gögnum sjálfs Landsdóms yfir Geir H. Haarde, hvorki meira né minna! Honum finnst það því undarlegt að ég hafi ekki mótmælt þessu áður og ekki síst þar sem fjallað hafði verið um málið í pistlum þeirra félaga Týs og Óðins! En þetta er ekkert undarlegt. Ég las aldrei málsskjöl Landsdóms bæði vegna þess að ég var mjög upptekinn við það sem ég taldi gagnlegri störf og svo kannski líka vegna þess að allur sá málatilbúnaður var ekki hátt skrifaður hjá mér, svo vægt sé til orða tekið.

Þeir félagar, Týr og Óðinn, hafa auðvitað mikið álit á sjálfum sér en staðreyndin er sú að ég les þá mismikið og Tý mun minna. Ég fékk hins vegar umræddan pistil Týs sendan í pósti þannig að hann fór ekki fram hjá mér. Óðinn hittir hins vegar stundum naglann vel á höfuðið en þess á milli keyrir hann stundum illa út af. Það kann að vera að ég hafi einhvern tíma hlaupið yfir grein eftir Óðinn þar sem eitthvað í þessa áttina kom fram og það hafi hvarflað að mér að leiðrétta. En það er svo margt ranglega fullyrt og ef það er ekki endurtekið á öðrum stöðum  er hætt við að tími sem fer í að elta ólar við allar missagnir komi niður á öðrum og mikilvægari verkefnum.

Hugsanleg skýring á öllu þessu máli gæti verið sú að Ingibjörg Sólrún hafi, eins og oft vill verða, skráð hjá sér einhver ummæli án þess að fyrirvarar og skilyrði hafi komið fram. Þannig getur staðhæfing um að við vissar aðstæður og að uppfylltum vissum skilyrðum geti borgað sig að „bjarga“ bönkum frá greiðsluþroti með veðvörðum lausafjárstuðningi orðið að því að það „borgi sig að bjarga bönkum frá því að hrynja“. Ég nota nú reyndar yfirleitt ekki orðið „bjarga“ í þessu samhengi enda of mikil einföldun þar sem aðgerðir sem miða að því að draga úr neikvæðum áhrifum á hagkerfið og bjarga verðmætum þegar bankar lenda í vandræðum geta tekið á sig margvísleg form eftir eðli vandans. Samspil bankakerfis af því tagi sem við búum við, regluverks um starfsemi þess og opinbers öryggisnets er flókið. Það er því alveg jafn fráleitt að halda því fram að það borgi sig aldrei að aðstoða banka í erfiðleikum og að halda því fram að þeim skuli ávallt bjargað með manni og mús. Það er rétt hjá Óðni að veð hafa tilhneigingu til að rýrna í kreppu og taka þarf tillit til þess við útfærslu slíkra aðgerða. En dæmin eru mörg um nær kostnaðarlausar aðgerðir þegar upp er staðið. Það hefur að vísu ekki farið hátt en í framhaldi af falli Lehman Brothers hefði norska bankakerfið hugsanlega lent í greiðslufalli á dollaraskuldbindingum með víðtækum afleiðingum ef ekki hefði komið til 5 milljarða dollara lausafjárfyrirgreiðsla norska seðlabankans (sjá nánar grein mína  „The Implications of Cross-Border Banking and Foreign-Currency Swap Lines for the International Monetary System“ í ritinu In the Wake of the Crisis: Leading Economists Reassess Economic Policy . Bls. 191.  Cambridge, MA: MIT, 2012.) Ekkert tapaðist af þeim lánum enda voru veðin traust. Aðstæður á Íslandi voru hins vegar allt aðrar af margvíslegum ástæðum sem ekki er rými til að fara út í hér en vísast í því sambandi til nokkurra ræðna sem ég hef haldið á alþjóðlegum vettvangi á undanförnum árum og má finna á heimasíðu Seðlabanka Íslands.

Týr virðist vera búinn að samþykkja það að ég hafi hætt öllum störfum á stjórnmálavettvangi a.m.k. á árinu 1994. En svo virðist sem veröldin verði að passa í boxin hans og hann hafi ríka þörf fyrir að skipa öllum í einhver lið. Því heldur hann því fram að það sé „augljóst að Már Guðmundsson hefur sterk pólitísk tengsl við fyrrum bandamenn sína á vinstri væng stjórnmálanna“. Það er hins vegar engan veginn augljóst að þau tengsl sem kunna að sitja eftir séu endilega „sterk“ eða „pólitísk“. Sem aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands hafði ég á sínum tíma „tengsl“ við stjórnmálamenn í flestum ef ekki öllum flokkum sem leituðu til mín með skýringar og ráð. Svör mín voru þau sömu óháð því í hvaða flokki viðkomandi var. Ég hafði líka slík „tengsl“ þegar ég var í Basel, sbr. fundinn í ráðherrabústaðnum, þó svo að þau hafi eðli málsins samkvæmt verið eitthvað minni.

Týr reynir að sanna mál sitt með því að vísa í smáskilaboð Ingibjargar Sólrúnar til Geirs H. Haarde. Tekið skal fram að ég vissi ekki af þeim og var alls ekki á lausu á þeim tíma enda held ég að þau séu send um það leyti sem nýtt skólaár var hafið í Basel. En þessi skilaboð breyta engu um ofangreint. Hún, eins og fleiri, þekkti til starfa minna hjá Alþjóðagreiðslubankanum þar sem ég meðal annars undirbjó og fylgdist með fundum helstu seðlabankastjóra heimsins í gegnum fjármálakreppuna og aðdraganda hennar. Það að telja það til vitnis um „sterk pólitísk tengsl“ er svona álíka gáfulegt og að halda því fram að vilji Georg Osborne, fjármálaráðherra Breta, til að fá Mark Carney sem bankastjóra Englandsbanka hafi verið vitnisburður um „sterk pólitísk tengsl“ Mark Carney við Georg Osborne eða breska íhaldsflokkinn! Það lýtur ekki allt lögmálum íslenskrar flokkapólitíkur og það eru fleiri en ég sem passa illa í flokkunarkerfi Týs!

Það er sérkennilegt að þurfa að standa í ritdeilu af þessu tagi og sérstaklega við einhvern sem telur sig vita betur en maður sjálfur hvaða skoðanir maður hefur á hlutunum.  Enn sérkennilegra er það þegar viðkomandi hefur ekki hugrekki til að gera það í eigin nafni en felur sig bak við dulnefni. Af þessum sökum, og þar sem mikilvægari verkefni kalla,  á ég ekki von á að skrifast frekar á við Tý.

Már Guðmundsson