Fyrirtaka er í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra er á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur eftir hádegi í dag. Þegar Már settist í stól seðlabankastjóra í ágúst árið 2009 samdi hann við bankaráð bankans um tæplega 1.600 þúsund króna laun. Bankastjórastóllinn var enn volgur þegar lögum um launamál ýmissa yfirmanna ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja var breytt og þau færð yfir til kjararáðs. Í lögunum var kveðið á um að laun yfirmanna ríkisstofnana, þar á meðal bankastjóra Seðlabankans, skyldu ekki vera hærri en föst laun forsætisráðherra. Laun Jóhönnu Sigurðardóttur voru um það leyti 935 þúsund krónur á mánuði. Laun Más voru í kjölfarið lækkuð í samræmi við breytingu á lögum um kjararáð.

Már fær nú greidda fasta yfirvinnu í hverjum mánuði og hífir það laun hans upp í rúma 1,2 milljónir króna. Rúmar 300 þúsund krónur vantar hins vegar upp á að hann nái upp í umsamin laun og snýst málið í héraðsdómi um leiðréttingu á því sem út af stendur.

Viðskiptablaðið hefur nokkrum sinnum fjallað um launamál innan Seðlabankans. Bankaráð ákvarðar nefnilega um laun annarra en Seðlabankastjóra og eru fimm starfsmenn þar með hærri laun en Már. Þar á meðal er Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri.

Ekki hefur náðist í Andra Árnason, lögmann Más í málinu.

Fréttir Viðskiptablaðsins um launamál Más má m.a. lesa hér og hér .