Stýrivaxtahækkun Seðlabankans átti ekki að koma á óvart. Þetta segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Hann heldur nú erindi um peningastefnu Seðlabankans á fundi Viðskiptaráðs um peningamál.

Már sagði að þegar stjórnvöld unnu með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með stjórnvöldum hér þá hafi verið tekin upp gengismarkmið í peningamálum. Nú megi hins vegar segja að verðbólgumarkmið hafi verið tekin upp á ný.

Már fór yfir endurskoðaða hagspá Seðlabankans sem birtist í Peningamálum á vaxtaákvörðunardegi en þar er því spáð að hagvöxtur verði að meðaltali 2,5% næstu þrjú ár og að verðbólga verði há fram á næsta ár. Hann sagði að þegar upp verði staðið þá muni hann ekki verða undrandi ef hagvöxtur verði meiri. Gangi það eftir verður Seðlabankinn að vera undir það búinn að geta slakað á peningastefnunni á nýjan leik. „Annað væri óábyrgt," sagði Már.