„Ef vextir Seðlabankans eiga að efla fjárfestingu þá þurfa þeir alltaf að vera núll,“ segir Már Guðmundsson seðalbankastjóri. Hann fór yfir vaxtaákvarðanir bankans síðustu misserin á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og sagði þvert á það sem sumir hafi haldið fram, að háir stýrivextir hamli ekki fjárfestingu. Þá taldi hann væntingar um 5-7% hagvöxt óraunhæfar.

Már sagði að þótt nafnstýrivextir hafi hækkað þá séu raunstýrivextir neikvæðir. Það sem sýnist vera hátt vaxtastig hafi ekki mikil áhrif á fjárfestingarstigið við núverandi aðstæður. Aðrir þætti vegi þyngra. Efnahagsreikningar fyrirtækja séu laskaðir, óróleiki í heimshagkerfinu hafi áhrif, óvissa sé um eftirspurn í framtíðinni og fleira af svipuðum toga spili inn í.

Már gagnrýndi jafnframt hagspár, svo sem aðila vinnumarkaðarins, síðustu misseri. „Ég held að eins og er séu væntingar um 5-7% hagvöxt óraunhæfar. Hagvöxtur ræðst ekki af peningastefnu heldur því hvernig vinnuafl verður hér, hvað mikið fjármagn er í umferð, hvort regluverkið örvi áhættutöku, menntun fólks og fleira. Rannsóknir sýna að ef verðbólga er há yfir löng tímabil þá dregur það úr hagvexti,“ sagði Már og lagði áherslu að skipulagsumbætur séu nauðsynlegar hér til að örva hagkerfið, svo sem með aukinni beinni erlendri fjárfestingu inn í landið til að lyfta framleiðslugetunni.