Í morgun var greint frá þeirri ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans að halda stýrivöxtum óbreyttum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri tekur þó fram að herða þurfi taumhald peningastefnunefndarinnar. Vel sé mögulegt að hækka þurfi vexti við næstu stýrivaxtaákvörðun en það velti á framvindu verðbólgunnar.

Í dag var jafnframt gefið út nýjasta tölublað peningamála. Þar kemur meðal annars fram að búist sé við að verðbólga haldi áfram að hjaðna og verði komin í um 3% á seinni hluta næsta árs. Seðlabankinn telur að verðbólgumarkmið náist í lok árs 2014.