Már Guðmundsson seðlabankastjóri var svo kvefaður á vaxtaákvörðunarfundi í Seðlabankanum í dag að eftir var tekið. Már tók reyndar sjálfur fram eftir að hann hafði gert grein fyrir rökum peningastefnunefndar fyrir þeirri ákvörðun að halda stýrivöxtum óbreyttum í 6% að kvef hrjái hann sem hafi áhrif á röddina. Það gæti jafnvel haft áhrif á fundinn og hugsanlega viðtöl við blaða- og fréttamenn að fundi loknum.

Þegar tæpur hálftími var liðinn af fundinum og Már svarað nokkrum spurningum en Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri einni sagði hann: „Nú erum við komin að síðustu metrum minnar raddar.“

Að því loknu var vaxtaákvörðunarfundi slitið. Fundurinn hófst klukkan 10:30 og standa gjarnan í um klukkustund. Fáheyrt er ef fundirnir eru styttri en hálftími. Már treysti sér svo aðeins í eitt viðtal og var það við RÚV.