Fyrirtæki og sveitarfélög eru í mörgum tilvikum þvinguð til að greiða niður erlend lán sín þar sem þau hafa ekki aðgang að erlendri endurfjármögnun og lentu ella í greiðslufalli, að sögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra.

Hann sagði í ræðu sinni á ársfundi bankans niðurgreiðslurnar líka geta verið vísbendingu um það að vaxtastigið hér á landi sé orðið það lágt miðað við væntingar fyrirtækja um verðbólgu og gengisþróun að þau sjái sér beinlínis hag í því að breyta erlendum lánum í innlend. Það geti verið jákvætt til lengdar en setji þrýsting á gengi krónunnar hér og nú.

„Hér er því eitt dæmið um hvernig innlenda vaxtastigið hefur áhrif á gengið þrátt fyrir gjaldeyrishöft,“ sagði Már en bætti við að af umræðunni að dæma virðist það algengur misskilningur að það að krónan lækki þrátt fyrir höft á útflæði fjármagns sé í sjálfu sér vísbending um alvarlega meinsemd.

„Krónan getur og á að sveiflast innan hafta jafnvel þó svo þau virkuðu fullkomlega. Vöru- og þjónustuviðskipti eru frjáls, fyrirtæki og stofnanir geta auðvitað greitt af sínum erlendu lánum, allt fjármagnsinnstreymi og það útstreymi sem að því leiðir er frjálst og allir þessir þættir geta sveiflast. Höftin stöðva fyrst og fremst óheft útstreymi gjaldeyris vegna fjármagnsviðskipta. En höftin hafa auðvitað áhrif á gengi krónunnar og eiga að hafa það. Á alla tiltæka mælikvarða og í alþjóðlegum samanburði sveiflaðist krónan minna á síðustu misserum en hún gerði á mjög löngu tímabili fyrir banka- og gjaldeyriskreppuna,“ bætti hann við.

Hér má lesa ræðu Más