„Við teljum ekki efnahagslegar forsendur fyrir viðbótarlaunahækkunum. Ef af þeim verður, þá hefur það afleiðingar sem við þurfum að bregðast við,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Hann gerir nú grein fyrir vaxtaákvörðun peningastefnunefndar bankans sem ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,75%. Már er formaður nefndarinnar. Hann hefur m.a. verið spurður að því hvers vegna nefndin ætli að bíða með hækkun stýrivaxta.

Már sagði tvo þætti skýra forsendurnar. Annars vegar sé óvissa um gengisþróun í vetur þrátt fyrir styrkingu í sumar. Á móti hafi verðbólga reynst lægri en spáð var. Hann setti fyrirvara við gengisstyrkinguna, hún hafi reynst skammvinn og hún ekki skilað sér nema að litlu leyti út í verðlag.

„Ef launin fylgja ekki á eftir þá breytir það ekki verðbólgu til lengdar. Það kemur smá kúfur og verðbólga stefnir í markmið. En sem betur fer hefur launaskrið verið minna en við vorum að óttast,“ sagði Már.