Már Guðmundsson hefur verið skipaður bankastjóri Seðlabanka Íslands að nýju. Skipunin gildir frá og með 20. ágúst 2014, að því er kemur fram í tilkynningu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytis.

Már var fyrst skipaður Seðlabankastjóri þann 20. ágúst 2009, þegar hann tók við embættinu af hinum norska Svein Harald Øygard.

Már lauk BA prófi í hagfræði frá háskólanum í Essex auk þess sem hann stundaði nám í hagfræði og stærðfræði við Gautaborgarháskóla. Már er með M-phil. gráðu í hagfræði frá háskólanum í Cambridge og stundaði þar doktorsnám.

Frá árinu 2004 gegndi Már starfi aðstoðarframkvæmdastjóra peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss. Hann starfaði áður í Seðlabanka Íslands í um tvo áratugi og þar af sem aðalhagfræðingur bankans í rúm tíu ár.

Eins og vb.is greindi frá þann 18. júlí voru Friðrik Már Baldursson, Ragnar Árnason og Már Guðmundsson metnir hæfastir umsækjenda til að gegna stöðu Seðlabankastjóra. Þetta var samkvæmt umsögn nefndar sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í lok júní, til að leggja mat á hæfi umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra.

Nefndina um hæfi umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra skipuðu Guðmundur Magnússon , fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, Ólöf Nordal , fyrrverandi varaformaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi formaður bankaráðs Seðlabankans, og Stefán Eiríksson lögfræðingur og fyrrverandi lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.