Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segist gera ráð fyrir að bankakerfið hér á landi verði háð meiri takmörkunum en önnur bankakerfi í Evrópu.

Þetta segir Már í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið.

Már segir að það stafi fyrst og fremst af því að hér á landi sé mikil áhætta út af lítilli mynt í litlu hagkerfi sem ekki sé hægt að horfa fram hjá. Þannig verði að setja bönkunum takmarkanir, s.s. að takmarka erlenda starfsemi þeirra eða setja reglur um hærra eiginfjárhlutfall vegna slíkrar starfsemi.

„Varðandi hið nýja fjármálakerfi tel ég að hér þurfi bankarnir fyrst um sinn að halda tiltölulega háu eiginfjárhlutfalli,“ segir Már.

„Síðan má í framhaldinu beita kröfum um eiginfjárhlutfall í sveiflujöfnunarskyni þegar útlánaþenslan er mikil, þá bara hækkum við það. Það þarf jafnframt að hafa betra regluverk varðandi  laust fé fjármálastofnana. Þetta þarf allt að spila betur saman.“

Már segir einnig mikilvægt að hafa í huga að þær reglur sem mótaðar séu á alþjóðlegum vettvangi eða á vettvangi ESB, séu einungis lágmarksreglur.

„Við getum sett strangari reglur til að þess að mæta staðbundinni áhættu og við eigum að gera það,“ segir Már.

„Síðan þarf að skoða einhvers konar samstarf eða sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Ég held að þar hafi verið pottur brotinn i aðdraganda fjármálakreppunnar hér og það hafi gert illt verra. Ef Seðlabankinn á að vera lánveitandi til þrautavara þá verður hann á hverjum tíma  að geta greint á milli þess hvort stofnanir séu í lausafjárvanda eða eiginfjárvanda. Hann þarf líka að vita hvaða veð eru tiltæk í bönkunum og hvernig bankarnir eru tengdir þannig að afleiðingar hugsanlegra ákvarðana Seðlabankans hvað þrautarvaralán varðar sé hægt að meta. Þetta getur hann ekki gert nema vera með svipaðar upplýsingar og FME hefur. Það hafði hann ekki þá og það hefur hann ekki enn.“

_____________________________

Nánar er rætt við Má í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .