Hagkerfið á Íslandi á eftir að ná bata. Á þessu ári má gera ráð fyrir 9% samdrætti í landsframleiðslu og það gæti jafnvel ílengst fram á fyrri helming næsta árs en á seinni hluta næsta árs má gera ráð fyrir bata í hagkerfinu.

Þetta kemur fram í nýlegu viðtali við Má Guðmundsson, seðlabankastjóra á vef CentralBanking.com.

Már segir í viðtalinu, sem birt var í lok ágúst, að í raun séu fjögur verkefni sem vinna þurfi úr. Í fyrsta lagi Icesave málið, í öðru lagi samstarfið við AGS, í þriðja lánin frá Norðurlöndunum og í fjórða lagi endurfjármögnun bankanna. Þá sé einnig mikilvægt að vinna að úrlausn gjaldeyrishaftanna og peningamálastefnunnar.

Þá segir Már að fall krónunnar hafi gert Íslendingum erfitt fyrir, bæði heimilum og fyrirtækjum, vegna mikilla skulda í erlendri mynt. Hann segir að skammtímamarkmið bankans sé að koma krónunni á ásættanlegt gengi, þar hjálpi gjaldeyrishöftin til en gallinn sé sá að gjaldeyrishöft séu oftast fjarri því að vera fullkomin og í þessu tilfelli séu þau alls ekki fullkomin.