Það er augljóst að peningastefnunefndin, þar sem formaður bankaráðs Seðlabankans og tveir seðlabankastjórar til viðbótar tóku ákvörðun um stýrivexti, var of lítil. Þess vegna var farið út í það að búa til sérstaka peningamálastefnunefnd sem nú starfar.

Þetta kemur fram í nýlegu viðtali við Má Guðmundsson, seðlabankastjóra á vef CentralBanking.com en þar var Már spurður út í þær breytingar sem urðu á peningamálastefnunefnd bankans. Már segir að það ákvörðun löggjafans [Alþingis] að breyta lögum um Seðlabankann en ekki bankans sjálfs.

Þá segir Már að það hafi gefist vel að fá utanaðkomandi aðila að nefndinni, innlegg þeirra sér mikils virði og byggir á sjálfstæðari skoðun. Þá auki það gegnsæi og trúverðugleika nefndarinnar að birta fundargerðir hennar.

Aðspurður um upptöku evru segir Már að mögulega henti hún Íslandi betur, að því gefnu að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og uppfylli öll þau skilyrði sem til þarf fyrir upptöku evrunnar. Már segir að reynsla síðustu ára sýni að það sé erfitt að halda uppi fljótandi gengi og sjálfsstæðri peningamálastefnu í opnu hagkerfi.

Þá segir Már að það hafi reynst Íslandi dýrkeypt að hafa alþjóðlegar fjármálastofnanir starfandi hér á landi með svo lítinn gjaldmiðil. Það sé auðveldara fyrir ríki eins og Lúxemborg sem sé hluti að evrusvæiðnu.

Már segir ólíklegt að alþjóðleg fjármálastarfssemi festi rætur á Íslandi aftur nema Íslands gerist aðili að Evrópusambandinu og búið verði að endurskoða bankakerfið í Evrópu þannig að alþjóðleg fjármálastarfssemi verði öruggari. Hann telur þó að langt sé land með að alþjóðleg fjármálastarfssemi verði með sama móti og var fyrir bankahrun, en það sama eigi þó við á alþjóðavísu.

Þá segir Már að íslenska bankakerfið hafi orðið allt of stórt miðað við landsframleiðslu. Hins vegar hafi íslenskt bankakerfi haft lítið að gera með íslenskt hagkerfi þar sem bankarnir hafi verið alþjóðlegir, fjármagnað sig með erlendu lánsfé og stærsti hluti starfsseminnar verið erlendis. Már segist gera ráð fyrir að íslensk bankastarfssemi muni á næstu árum leggja áherslu á starfssemi hér á landi, kerfið muni njóta betri yfirsýnar og þrengri reglna. Hins vegar komi sá tími að íslenskir bankar muni hefja alþjóðlega starfssemi á ný, það þurfi hins vegar að gerast samkvæmt reglum í Evrópu og annars staðar.