„Enn er þó slaki í þjóðarbúskapnum, en framangreind þróun [innsk. blaðamanns: efnahagsþróun síðasta árs og hagvöxtur undir væntingum] ásamt vonbrigðum varðandi verðbólgu vekur spurningu um hversu mikill hann sé. Þeir sem taka ákvarðanir í peningamálum þurfa að spyrja sig um þetta hvert sinn sem ákvörðun er tekin um vexti, því stór hagstjórnarmistök fyrri tíma, bæði hér á landi og erlendis, sem endað hafa með verðbólgu og óstöðugleika hafa oft átt rætur að rekja til þess að slaki og hagvaxtargeta eru ofmetin.“

Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á ársfundi Seðlabankans sem nú stendur yfir. Már sagði hagvöxt á síðasta ári vonbrigði en þó að því leiti jákvæðan að hann væri ekki fenginn að láni.

Már beindi orðum sínum til aðila vinnumarkaðarins og sagði launahækkanir langt umfram framleiðniaukningu hafa átt stóran þátt í vaxandi verðbólgu. Sendi hann í máli sínu stjórnvöldum sterk skilaboð um þörf á ábyrgð í stjórn peningamála.

Byrjar með uppgjöri búa bankanna

Már kom víða við í tölu sinni og ræddi meðal annars afnám gjaldeyrishafta. Höftin voru einnig efni ræðu Katrínar Júlíusdóttur á fundinum sem sagði víðtæka sátt orðna um leiðir við afnám hafta. Vísuðu bæði Katrín og Már til nýsamþykktra laga um gjaldeyrismál sem samstaða var um meðal allra þingmanna. Löggjöfina sagði Már skapa traustari grundvöll en áður undir þá vinnu sem framundan er við að finna lausn á uppgjöri búa bankanna sem samrýmist stöðugleika í gengis- og peningamálum og auðveldar stærri skref að losun hafta.

„Hversu líklegt er að við getum losað fjármagnshöftin á allra næstu árum? Það segir sig sjálft að það yrði mun auðveldara ef til kæmi nýtt fjármagnsinnstreymi, hvort sem það er vegna þess að nýir lánamöguleikar erlendis opnast fyrir innlenda aðila sem á því þurfa að halda eða vegna beinnar erlendrar fjárfestingar. Þá er ljóst að ekki verði hægt að stíga afgerandi skref varðani losun ahfta fyrr en fundin hefur verið lausn á uppgjöri búa föllnu bankanna sem samrýmist henni,“ sagði Már.