Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur ekki rætt við fjármálaráðherra eða aðra ráðherra um aflandskrónuútboðið eða stöðuna í stjórnmálunum síðan á mánudag. Þetta segir hann í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að verið sé að vinna á fullu að útboðinu í Seðlabankanum og í fjármálaráðuneytinu, og að ef ekkert nýtt gerist muni hræringarnar í stjórnmálunum ekki tefja útboðið.

„Fræðilega séð, ef þessi órói hefði endað í einhverjum miklum óstöðugleika á þeim vettvangi, þá hefði það geta gerst,“ segir Már spurður hvort óstöðugleiki í stjórnmálum geti haft áhrif á tímasetningu útboðsins. „En mér sýnist að við þurfum ekki að vera að ræða það núna, því að nú höldum við bara áfram.“

Hafði ekki áhrif á fjármálastöðugleika

Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hækkaði framan af vikunni og skuldatryggingaálag ríkissjóðs hækkaði nokkuð. Már segir það ekki vera mat Seðlabankans að hræringarnar í stjórnmálunum hafi haft áhrif á fjármálastöðugleika.

„Það komu greinileg áhrif á skuldabréfamarkaði og hlutabréfamarkaði, mjög lítil á gjaldeyrismarkaði og nánast engin áhrif á áhættuálag á ríkisskuldabréf erlendis eða skuldatryggingaálag ríkisins. Kannski af því að þetta varði svo stutt.

Mér sýndist að þessi áhrif væru svolítið að ganga til baka núna í morgun og þessar hræringar á skuldabréfamarkaði voru ekki af þeirri stærðargráðu að það ógnaði á neinn hátt fjármálastöðugleika. Enda eru okkar fjármálastofnanir í mjög góðu ástandi,“ segir Már.

Ekkert innflæði á skuldabréfamarkað síðan á mánudag

Már segir aðspurður að síðan á mánudag hafi verið mjög lítið um innflæði fjármagns þar sem erlendir aðilar koma í gegnum vaxtamunarviðskipti og inn á skuldabréfamarkaðinn. „En þetta var líka svo stutt tímabil, og það hafa áður komið töluvert löng tímabil þar sem þeir [vaxtamunarfjárfestar, innsk. blm.] eru ekkert að koma inn.“

Hann segir að forvitnilegt verði að fylgjast með því sem gerist í framhaldinu. „Vegna þess að það hefur ekkert innflæði verið síðan, en þetta er stutt tímabil. Við fylgjumst svo bara með því.“

Óskar Lilju farsældar

Lilja Alfreðsdóttir, sem skipuð var utanríkisráðherra fyrr í dag, starfaði áður sem aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu seðlabankastjóra. Már segir að sér lítist ekkert alltof vel á það að hún sé orðin ráðherra, þar sem hún er einn af albestu starfsmönnum Seðlabankans.

„En ég skil það auðvitað að þetta er upphefð fyrir hana og óska henni góðs í því starfi. Hún verður þar mjög öflug, eins og hún er í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur.“