„Til að byrja með þá sagði ég við Bloomberg að hér yrði ekki frjálst flot krónunnar, líkt og var hér fyrir hrun, þótt um einhvers konar flot yrði að ræða. [ ... ] að ekki væri rétt að fylgja þeirri stefnu sem fylgt var fyrir hrun að vera með hreint flotgengi, heldur að vera með það sem á ensku nefnist managed float eða stýrt flot sem myndi gera það að verkum að þegar óhóflegt fjármagnsinnstreymi verður, líkt og var fyrir hrun, þá myndi Seðlabankinn kaupa hluta af því og stýra inn í gjaldeyrisforðann og leggjast þar af leiðandi gegn gengisstyrkingunni.“

Þetta segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í viðtali við Morgunblaðið í dag. Viðtalið varðar ummæli hans og umfjöllun Bloomberg fréttaveitunnar um stöðu og framtíð krónunnar. Í viðtalinu gagnrýnir Már ósamræmi ríkisfjármálastefnu og peningastefnu sem þurfi að toga í sömu átt. Með því að tryggja að launa- og tekjustefna sé í samræmi við þau markmið sem stefnt sé að megi komast hjá „endurteknu launahækkunum umfram forsendur sem öllum er ljóst að ekki verður hægt að standa við að raungildi og fara alltaf annaðhvort út í verðbólgu eða þarf að stíga mjög harkalega á bremsuna í peningamálum og kalla fram samdrátt.“

Aðspurður um hvort árangur gjaldeyrisinngripa Seðlabankans hafi verið slæmur segir Már:

„Nei, ég tek ekki undir það. Við höfum með inngripum jafnað heilmiklar sveiflur og það kalla ég árangur. Við erum ekkert óskeikul, ekki fremur en aðrir, stundum höfum við kannski keypt of lítið og stundum of mikið. Það má ekki gleyma því að það gætu komið upp hér þær aðstæður að réttlætanlegt væri að vera með inngrip í miklu meira mæli en við höfum verið með en þá er mjög mikilvægt að kaupa þegar gjaldeyririnn er ódýr og selja þegar hann er dýr.