Íslenska ríkið er vel greiðslufært og ræður við skuldir sínar. Annars hefði ríkinu ekki tekist, tvisvar á undanförnum misserum, að sækja sér lán á erlendum lánamörkuðum.

Þetta sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, á peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun.

Már sagði þó að skuldir íslenska þjóðarbúsins væru öllu meiri, sérstaklega þegar tekið væri tillit til skulda Actavis sem alþjóðlegs fyrirtækis. Á fundinum fór Már yfir stöðuna peningamála og skuldarstöðu Íslands. Þá sagði Már að Seðlabankinn áætlaði að skuldir þjóðarbúsins væri um hálf til ein landsframleiðsla þó sumir teldu þær öllu hærri.

Már ítrekaði að Ísland ætti við greiðslujafnaðarvandamál að stríða en ekki skuldavandamál.

Már sagði að í maí sl. hafi Seðlabankinn metið skuldastöðuna í kringum hálfa landsframleiðslu. Hins vegar hafi komið ábendingar um að það sé vanmat. Már sagði þó að aðeins ein af þeim ábendingum hefði staðist, þ.e. að væntanlega væri hlutdeild innlendra aðila í greiðslum úr þrotabúunum „eitthvað minni en reiknað hefur verið með,“ eins og Már orðaði það í ræðu sinni.

„En jafnvel þótt leiðrétt sé fyrir því breytir það ekki skuldastöðunni í stórum mæli,“ sagði Már.

„Seðlabankinn hefur þegar hafið mjög umfangsmikla vinnu til að fínpússa matið á skuldastöðunni. Niðurstaðan gæti orðið eitthvað hærri en hálf landsframleiðsla en ekkert bendir til þess nú að myndin breytist í grundvallaratriðum. En jafnvel svo ólíklega vildi til að hrein skuldastaða væri metin nærri ein landsframleiðsla væri það alls ekki óviðráðanlegt og reyndar langt í frá. Spár Seðlabankans benda til þess að undirliggjandi viðskiptaafgangur næstu ára sé á bilinu 2-3% af landsframleiðslu og hafið þá í huga að með í viðskiptajöfnuði er búið að telja allar vaxtagreiðslur og arðgreiðslur til erlendra aðila vegna skulda Íslendinga erlendis og eigna útlendinga hér á landi. Viðskiptaafgangur af þessari stærðargráðu og hagvöxtur í kringum 3% nær að lækka hreinar skuldir í hlutfalli við landsframleiðslu nokkuð hratt og örugglega.“

Eins og áður kom fram sagði Már að vandamál landsins fælist helst í því að innlendir aðilar aðrir en ríkissjóður og örfáir aðrir eins og t.d. Landsvirkjun hefðu aðgang að erlendu lánsfjármagni til framkvæmda og endurfjármögnunar. Það fælist það í sér að sumir aðilar þurfa því að greiða niður sínar erlendu skuldir miklu hraðar en æskilegt er sem setur þrýsting á íslensku krónuna.

Þá sagði Már að nú lægi fyrir að finna leiðir til að úrlausn þrotabúa föllnu bankanna hefði ekki neikvæð áhrif og helst jákvæð áhrif á greiðslujafnaðarvandann og fjármálastöðugleika á Íslandi.

„Þær eru til og ég hef gefið að einhverju leyti í skyn hverjar þær gætu verið en það bíður betri tíma að útlista þær af meiri nákvæmni,“ sagi Már.