Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í samtali við Mbl.is að ekki þurfi að framfylgja gjaldeyrisreglum þegar gjaldeyrishöftin eru ekki við lýði. „Þó er ekki þar með sagt að ekki verði gjaldeyriseftirlit, það verður kannski minna, en það á eftir að fara yfir það,“ er haft eftir Má í frétt Mbl.is.

Már tekur þó fram að það verði að safna talsvert betri upplýsingum um gjaldeyrisstrauma og gjaldeyrisstöðu en gert var fyrir hrun. En það verði ekki hluti af gjaldeyriseftirliti, heldur frekar almennu fjármálastöðuleikaeftirliti.

22 starfsmenn eru fastráðnir við gjaldeyriseftirlit hjá Seðlabanka Íslands um áramótin og einn lausráðinn. Stefán Jóhann Stefánsson, upplýsingafulltrúi Seðlabankans, vísaði til orða Más, spurður að því hvort afnám gjaldeyrishafta kalli á uppsagnir í gjaldeyriseftirliti.