Már Guðmundsson seðlabankastjóri kynnti rétt eftir klukkan þrjú í dag nýja 10 þúsund króna seðilinn.

Hann kemur í umferð 24. október næstkomandi.  Þetta er fyrsti seðillinn sem kemur út frá árinu 1995, eða í átján ár.

Seðillinn var birtur fyrr í dag á Banknote news, eins og Viðskiptablaðið greindi frá.

Tileinkaður Jónasi

Seðillinn er tileinkaður Jónasi Hallgrímssyni, en í seðlinum má finna vísanir í störf Jónasar sem skálds, íslenskumanns, alþýðufræðara og náttúrufræðings.

Á framhlið er mynd af Jónasi Hallgrímssyni, Háafjalli og Hraundranga. Þar eru einnig ljóðlínur úr kvæðinu Ferðalok með rithönd Jónasar. Hæðarlínur fjallsins Skjaldbreiðs mynda grunnmynstur bak- og framhliðar.

Á bakhlið er blýantsteikning Jónasar af fjallinu Skjaldbreið ásamt vetrarljósmynd af fönnum fjallsins. Hæðarlínum Skjaldbreiðs er varpað inn á myndina. Einnig eru þar myndir af lóum og hörpuskel og ljóðlínur með rithönd Jónasar úr fyrsta erindi kvæðisins Fjallið Skjaldbreiður.