Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir í bréfi til kjararáðs, þar sem hann færi rök fyrir því að heildarlaun hans skuli hækka nærri því sem þau voru fyrir lækkun kjararáðs, að annað samræmist ekki jafnræðissjónarmiðum. Morgunblaðið hefur bréfið undir höndum og er það dagsett 14. september 2012.

Már færir rök fyrir þessari skoðun sinni: „Starf seðlabankastjóra sé aðeins að hluta til stjórnunarstarf. Hann leiði víðtæka stefnumótunarvinnu á margvíslegum sviðum, hann þurfi að hafa gott faglegt vald á helstu viðfangsefnum bankans og getu til að skrifa um þau og ræða af myndugleik, hann þurfi að halda faglegar ræður og skrifa greinar, einnig á erlendum vettvangi.

Telur seðlabankastjóri að afla þurfi ítarlegra upplýsinga um alla þessa þætti áður en ákvörðun um launakjör er tekin. Einnig verði að líta til launakjara einstaklinga í sambærilegri stöðu á einkamarkaði m.t.t. starfa og ábyrgðar,“ segir í bréfinu sem Morgunblaðið greinir frá.