Már Másson hefur verið ráðinn forstöðumaður kynningarmála Glitnis [ GLB ] á Íslandi frá og með 10. janúar nk. en hann hefur undanfarið ár starfað sem upplýsingafulltrúi Fjármálaeftirlitsins. Már mun leiða kynningarstarf Glitnis á Íslandi auk þess sem hann mun koma að ýmsum kynningarverkefnum bankans á erlendum mörkuðum. Þá verður Már ábyrgur fyrir verkefnum Glitnis sem snúa samfélagslegri ábyrgð og alþjóðlegum menningarsjóði bankans.

Már stundaði B.Sc nám í alþjóðaviðskiptum og M.Sc. nám í markaðsfræði og samskiptum við Viðskiptaháskólan í Kaupmannahöfn (CBS) á árunum 1999-2004 og starfaði síðan sem viðskiptafulltrúi við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn á árunum 2004-2006. Sem viðskiptafulltrúi starfaði Már m.a. sem ráðgjafi fyrir íslensk fyrirtæki í leit að markaðs- og fjárfestingatækifærum í Danmörku. Þá sinnti Már einnig virku kynningarstarfi á íslensku efnahags- og fjármálalífi gagnvart dönskum fjölmiðlum, fyrirtækjum og hagsmunasamtökum. Með náminu í Kaupmannahöfn starfaði Már fyrir Dansk-íslenska verslunarráðið. Hann starfaði áður sem skrifstofustjóri Alþjóðaviðskiptaráðsins (ICC) hjá Viðskiptaráði Íslands. Már er kvæntur Ernu Agnarsdóttur og eiga þau tvö börn.