Stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa verið lækkaðir úr sex prósentum í 5,75 prósent. Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir þetta gert nú vegna þróunar í verðbólgu og verðbólguvæntingum. "Það er mjög ánægjuleg þróun, verðbólgan hefur verið undir verðbólgumarkmiðinu núna í níu mánuði og það eru ákveðnar líkur á að hún fari enn neðar," segir Már.

Ef launahækkanir í kjarasamningum verða í samræmi við verðbólgumarkmið gætu skapast forsendur til frekari lækkunar, að því er kemur fram í tilkynningu bankans. En ef mikil hækkun verður, eins og til dæmis árið 2011, myndi bankinn þurfa að hækka vexti á ný, að sögn Más.