Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að staða stóru viðskiptabankanna þriggja sé að mörgu leyti sterk og hafi batnað enn frekar á síðasta ári. Þetta kemur fram í inngangi hans í nýútkomnu riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika , en bankinn gefur út slíkt rit tvisvar á ári.

Seðlabankastjórinn segir arðsemi heildareigna stóru bankanna hafa numið 2,7% sem teljist gott í alþjóðlegum samanburði. Eigið fé hafi haldið áfram að aukast og sé með því mesta sem gerist í nágrannalöndunum. Hins vegar beri að hafa í huga að víða í Evrópu sé eiginfjárstaða banka lakari en æskilegt sé.

„Lausafjárstaða bankanna er einnig sterk eins og sést m.a. á því að lausafjárhlutfall í heild og í erlendum myntum er vel yfir lágmarkskröfum Seðlabankans. Hið sama á við um fjármögnunarhlutfall í erlendri mynt. Þá er fjármögnunarþörf þeirra hófleg í erlendum gjaldmiðlum á næstu árum,“ segir Már.

Að sögn Más þurfa viðskiptabankarnir því aðeins að taka erlend lán sem nemi 30 milljörðum króna árlega á næstu árum til þess að endurfjármagna afborganir og halda sér vel fyrir ofan lágmarkskröfur Seðlabankans varðandi lausafjárstöðu í gjaldeyri.

Fjármögnun varin af höftum

Már segir aftur á móti að þegar kafað sé dýpra sé myndin ekki að öllu leyti eins björt og virðist við fyrstu sýn. Þar komi tvennt til.

„Annars vegar er fjármögnun bankanna að hluta til varin af fjármagnshöftum. Hins vegar mátti rekja stóran hluta hagnaðar bankanna á síðasta ári til endurmats eigna og annarra einskiptisliða en undirliggjandi afkoma af grunnrekstri er eins og áður er nefnt mun veikari. Við núverandi aðstæður er því varhugavert að veikja viðnámsþrótt bankanna um of með verulegum arðgreiðslum,“ segir Már.

Rit Seðlabankans má lesa í heild sinni hér.