Seðlabankinn leggur nú lokahönd á áætlun um afnám gjaldeyrishafta. Skýrslan verður væntanlega kynnt fyrir fulltrúum ríkisstjórnar fyrir næstu mánaðarmót. Þetta sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri á opnum fundi Félags kvenna í atvinnurekstri og utanríkisráðuneytisins í dag. Már er jafnframt formaður rýnihóps um gjaldmiðilsmál í aðildaviðræðum við ESB en á fundinum fjallaði Már um valkosti Íslands í peningamálum.

Næsta skref gæti hafist fljótlega

Már sagði að næsti áfangi í afnámi gjaldeyrishafta gæti hafist fljótlega. Hann gæti þó ekki lýst því í smáatriðum hvað felst í því. Þó sagði hann að í raun séu tvenns konar hömlur í vegi fyrir algjöru afnámi hafta. Eitt atriðanna lúti að aflandskrónum. Már sagði að Seðlabankinn sé búin að komast að þeirri niðurstöðu að næsta skref í afnámi hafta væri að losa um þessar krónur, „út og inn“ líkt og hann orðaði það á fundinum. Það yrði þá gert m.a. í gegnum skiptasamninga, líkt og Avens-viðskiptin. Aflandskrónum yrði einnig hleypt í fjárfestingar hérlendis, í þess konar verkefni sem ekki veikja gengi krónunnar sagði Már.

Hann sagði að í ferlinu sé mikilvægt að minnka verulega þann mun sem er á gengi krónunnar hérlendis og aflandsgengi.

Icesave hefur áhrif

Már sagði að ekki muni reyna á gjaldeyrisforða Seðlabankans við fyrra stig ferilsins. Hinsvegar reyni á ef höftum er lyft á útflæði fjármagns, þá skapist hætta. Hann sagði að uppfylla þurfi ákveðin atriði áður en slíkt afnám fer fram. Ótti við að krónan falli við afnám þurfi að minnka verulega og þá þurfi að vera tryggt að ríkissjóður Íslands geti fjármagnað sig á erlendum mörkuðum.

Már sagði að í því samhengi sé Icesave enn og aftur atriði sem skipti máli. Hann vísaði í orð Moody‘s matsfyrirtækis frá því í gær þar sem sagði að Ísland færi líklegast í ruslflokk ef samingunum verður hafnað.